154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Við Píratar höfum talað fyrir því að stjórnvöld geri raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar og hverfi frá ósjálfbærri stóriðjustefnu. Rými til slíkrar umræðu er hins vegar ekkert hjá núverandi ríkisstjórn. Ráðherra hefur farið mikinn í því að blása út umræðuna og nýta sér baráttuna í loftslagsmálum til að ýta áfram gömlum og úreltum stefnumálum Sjálfstæðisflokksins. Klifað er á því að það þurfi að tvöfalda raforkuframleiðslu, tvöfalda framleiðslu í útbólgnasta raforkukerfi heims. Botnvirkjunarjarm ríkisstjórnarinnar er hins vegar fullkomlega innstæðulaust á meðan ekkert er gert til að tryggja að ný orka fari í orkuskipti. Á sama tíma er lítið gert til að hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur þrátt fyrir að ljóst sé að samgöngur standa fyrir mjög stórum hluta af samfélagslosun Íslands. Það ergilegasta við það hversu takmörkuðum árangri ríkisstjórnin er að ná í loftslagsmálum er að tækifærin eru allt í kringum okkur og fólk er tilbúið til að taka þátt. Það er nefnilega þannig að þetta mikilvæga verkefni stjórnvalda, að draga úr losun frá vegasamgöngum, er að ýmsu leyti líka það viðráðanlegasta. Píratar hafa lagt til niðurgreiðslur á tímabilakortum í strætó og hraustlega innspýtingu í stofnleiðir þannig að bæta megi núverandi kerfi á meðan við bíðum eftir borgarlínu. Við viljum stórefla almenningssamgöngur um allt land og standa þannig sérstaklega vörð um ferðafrelsi ungs fólks og greiða leið ferðamanna um landið. Svo viljum við horfa enn lengra til framtíðar með áform um lestakerfi sem gæti fyrst um sinn náð 50 km út frá höfuðborgarsvæðinu og búið þannig í haginn fyrir samfélagsþróun þar sem vistvænar samgöngur eru útgangspunkturinn.

Það góða við stöðuna er að almenningur er tilbúinn eins og sést á því hvernig sala á vistvænni ökutækjum hefur rokið upp og sést á þeirri byltingu sem hefur orðið í samgönguhjólreiðum árið um kring. (Forseti hringir.) En til að gera þessa þróun mögulega þarf að tryggja að vegakerfið geri ráð fyrir fjölbreyttum samgöngumátum. Stjórnvöld þurfa því nauðsynlega að gera sitt þegar kemur að vistvænum samgöngum. (Forseti hringir.) Þær eru nauðsynlegar til að draga úr losun og byggja upp nútímalegt samfélag til framtíðar. Almenningur er tilbúinn.